13. desember 2016

Hópur fjárfesta kaupir ISS Ísland fyrir milligöngu Fossa

Fossar markaðir í Stokkhólmi höfðu milligöngu um kaup hóps innlendra og erlendra fjárfesta á öllu hlutafé ISS Ísland ehf. af ISS World Services. Kaupverðið er trúnaðarmál og samningurinn háður hefðbundnum fyrirvörum, en bæði kaupendur og seljandi eru bjartsýnir á að viðskiptin gangi að fullu í gegn fyrir lok árs.

Kaupendahópurinn samanstendur af erlendum aðilum með mikla reynslu af rekstri og stjórnun þjónustufyrirtækja á heimsvísu, innlendum fjárfestum og núverandi stjórnendum ISS Ísland.

„Þetta var spennandi verkefni þar sem saman kemur blandaður hópur innlendra og erlendra fjárfesta,“ segir Andri Guðmundsson, sem leiðir uppbyggingu Fossa á Norðurlöndum. „Aðkoma erlendu fjárfestanna að verkefninu er í gegn um tengslanet Fossa í Stokkhólmi,“ segir hann, en þar opnuðu Fossar markaðir skrifstofu í ágúst síðastliðnum.

Meðal fjárfestanna er Patrick de Muynck, sem áður var stjórnandi hjá franska veitingafélaginu Elior Group og sænska sjóðastýringarfélagsins EQT sem um árabil átti meðal annars ISS og SSP Group. Elior, SSP og ISS eru meðal stærstu fyrirtækja heims á sviði fasteigna- og veitingaþjónustu. Þá eru að auki á meðal fjárfestanna Peter Nilsson, fyrrum forstjóri Duni og Sanitec, Einar Sveinsson og Benedikt Sveinsson.

ISS World Services A/S er leiðandi í fasteignaumsjón í heiminum og er með starfsemi í 53 löndum. ISS hóf starfsemi hér á landi árið 2000, þegar fyrirtækið keypti ræstingadeild Securitas og hefur undanfarin 16 ár vaxið og aukið verulega við starfsemina. Þjónusta fyrirtækisins felst í ræstingum, veitingaþjónustu, annarri fasteignaumsýslu og samhæfðum þjónustulausnum. Fyrirtækið kemur til með að starfa áfram undir merkjum ISS næstu tvö árin á grundvelli samstarfssamnings við ISS World Services A/S.