Á árvissum Takk degi Fossa fjárfestingarbanka sem fram fór í áttunda sinn 24. nóvember síðastliðinn söfnuðust 23.875.312 kr. sem runnu til Píeta samtakanna. Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa, afhenti Kristínu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Píeta samtakanna, söfnunarféð í höfuðstöðvum Fossa við Fríkirkjuveg í Reykjavík í dag, mánudaginn 28. nóvember.
„Mikill vöxtur í söfnuninni undanfarin ár gleður okkur mjög, en þar vegur þungt þáttur viðskiptavina Fossa sem lagt hafa söfnuninni lið með beinum framlögum inn á reikning söfnunarinnar. Við erum þeim afar þakklát fyrir að leggja söfnuninni lið með þessum hætti,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa. Segja má að söfnunin hafi slegið met á hverju ári frá byrjun. Á síðasta ári söfnuðust rúmar 21,6 milljónir króna sem runnu til Jafningjaseturs Reykjadals og árið þar á undan söfnuðust 12,6 milljónir króna sem runnu til Geðhjálpar.
Á Takk degi Fossa fjárfestingarbanka renna allar þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins til góðs málefnis auk þess sem viðskiptavinum gefst kostur á að styrkja söfnunina beint. Auk Fossa taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland) og uppgjörsfyrirtækið T Plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau í staðinn til söfnunarinnar. Þá gefur auglýsingastofan TVIST vinnu sína sem tengist deginum.
„Síðustu ár má segja að veldisvöxtur hafi verið í starfsemi Píeta og ljóst að þörf var fyrir starfsemi sem okkar. Við þökkum Fossum og öllum þeim sem lögðu söfnuninni lið kærlega fyrir framtakið.“ segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna.