Fossar markaðir héldu ráðstefnu í London í síðustu viku þar sem erlendum fjárfestum var boðið að kynna sér stöðu efnahagsmála á Íslandi og tækifæri til fjárfestinga. Óhætt er að segja að mörg vestræn ríki standa frammi fyrir áskorunum í efnahagsmálum en grunnstoðir íslensks efnahagslífs eru hins vegar sterkar. Alþjóðleg vísitölufyrirtæki eru líka ýmist að bæta Íslandi inn í vísitölur (MSCI frontier index) eða færa hlutabréfamarkaðinn upp um flokk (FTSE secondary emerging markets index), sem undirstrikar aukið vægi Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa opnaði viðburðinn og í framhaldi fylgdu fjögur erindi frá forystufólki í íslensku atvinnulífi; fyrst Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og að endingu Orri Hauksson, forstjóri Símans.
„Við fórum yfir góða stöðu efnahagsmála á Íslandi almennt og hvernig hagkerfið rís úr þeim þrengingum sem hafa gengið yfir heiminn sl. tvö ár. Enn fremur voru þær áskoranir sem framundan eru gerðar að umtalsefni,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa, sem kveður fundargesti hafa verið áhugasama um aðstæður hér og tækifæri til fjárfestinga. Einnig var farið yfir viðskiptaumhverfið á Íslandi og tækifæri tengd skuldabréfum og hlutabréfum skráðum í Kauphöllina, Nasdaq Iceland.
„Það er ljóst að aukin tækifæri eru á íslenskum verðbréfamarkaði sem vekja áhuga erlendra aðila. Markaðurinn hefur að vissu leyti verið einsleitur en hefur þroskast með fleiri skráðum félögum á skipulegan verðbréfamarkað og aukinni áherslu á útgáfu skuldabréfa á næstu árum,“ segir Haraldur. Tækifærin séu því fleiri og trú á íslenskt efnahagslíf sé ágæt.