Haraldur Þórðarsson, Fossar fjárfestingabanki
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka
1. júní 2022

Fossar verða fjárfestingarbanki

Fossar markaðir hafa fengið starfsleyfi sem fjárfestingarbanki frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og heita nú Fossar fjárfestingarbanki hf.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka:
„Um er að ræða afskaplega ánægjulegan áfanga í sögu Fossa sem felur í sér fjölgun tækifæra til að þjónusta viðskiptavini okkar og jafnframt aukin umsvif á fjármálamarkaði. Með nýju starfsleyfi getum við boðið viðskiptavinum upp á víðtækari þjónustu en áður meðal annars með auknum heimildum til útlána og aukinni getu til framvirkra viðskipta með verðbréf og gjaldeyri. Þá opnar starfsleyfið á möguleika Fossa til að starfrækja viðskiptavakt með skráða fjármálagerninga, þar á meðal með ríkisskuldabréf. Við leggjum enn fremur mikla áherslu á áframhaldandi uppbyggingu eignastýringar og fjárfestingaráðgjafar þar sem alþjóðlegt vöruframboð okkar er í sérflokki.”

Fossar fjárfestingarbanki mun áfram kappkosta við að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu með áherslu á markaðsviðskipti, fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu. Starfsfólk Fossa hlakkar til áframhaldandi samstarfs með viðskiptavinum undir nýjum formerkjum.

Um Fossa fjárfestingarbanka
Fossar voru stofnaðir árið 2015 og þjónusta innlenda og erlenda fjárfesta á sviði markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og eignastýringar. Starfsmenn Fossa eru reyndir sérfræðingar með viðamikla þekkingu á bæði innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Markmið Fossa er að skila viðskiptavinum árangri með því að veita framúrskarandi fjármálaþjónustu. Enn fremur leggja Fossar mikið upp úr því að vera í fararbroddi íslenskra fyrirtækja í samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni, bæði í eigin starfsemi og í gegnum víðtæk áhrif starfseminnar á viðskiptavini og aðra haghafa. Þannig hafa Fossar til dæmis verið brautryðjandi í umsjón með útgáfu grænna skuldabréfa á Íslandi.