26. nóvember 2020

Afrakstur Takk dagsins rennur til Geðhjálpar

Fossar halda Takk daginn, sem verður með óvenjulegu sniði, í sjötta sinn í dag, fimmtudaginn 26. nóvember, í samstarfi við viðskiptavini og samstarfsaðila.

Allar þóknanatekjur vegna viðskipta á Takk daginn renna til góðs málefnis. Í ár renna þær til Geðhjálpar, sem meðal annars stendur fyrir herferðinni „39.is“ og „Geðlestinni“ auk nýs verkefnis sem hleypt verður af stokkunum á þorranum og er ætlað að stuðla að bættri geðheilsu þjóðar.

Geðheilsa er allra mál

„Takk deginum hefur undanfarin fimm ár verið fagnað með gleðskap í lok dags þar sem við höfum þakkað viðskiptavinum og velunnurum fyrir þátttökuna. Nú færum við öllum stemninguna rafrænt þangað sem þeir eru í ljósi samkomutakmarkana í þágu sóttvarna,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

„Þótt við látum Covid ekki slá okkur út af laginu þá eru þessar aðstæður ágæt áminning um hvað samskipti við annað fólk skiptir miklu máli fyrir andlega velferð okkar allra. Það eiginlega hvetur okkur til að horfa á geðheilbrigðismál út frá víðara og almennari sjónarhorni en áður. Það er fjallað um geðheilbrigði ungra og aldraðra, fólks sem missir vinnuna, heilsuna eða einhvern nákominn. Jafnvel er fullyrt um geðheilbrigði þjóðarinnar allrar. Það er jákvætt því geðheilbrigði hefur ekki fengið sanngjarna athygli þótt margt hafi breyst til batnaðar undanfarin ár. Og við viljum stuðla að því að hægt verði að setja geðheilbrigði í enn meiri fókus á komandi ári.“

Til verður Takkfréttastofa

Haraldur bætir við að mikilvægt sé að allir leggist á eitt við að hlúa að andlegri heilsu þjóðarinnar og veita þeim öflugan stuðning sem sjái fram á erfiða tíma og áskoranir. „Saman stöndum við öll sterkari. Svo megum við ekki tapa gleðinni. Því voru fengnir vanir „hraðfréttamenn“ til að setja upp Takkfréttastofu eins og þeim er einum lagið. Við viljum deila með fólki mikilvægu starfi Geðhjálpar, hvað starfsemin skiptir marga máli og hvað verkefnin eru mörg, auk þess sem fjallað verður um verkefni sem áður hafa verið styrkt á Takk deginum.“

Auk Fossa markaða taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland), T-plús og auglýsingastofan Tvist þátt í Takk deginum með dyggilegum stuðningi. Felld eru niður gjöld á viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau til söfnunarinnar í staðinn og auglýsingastofan Tvist gefur vinnu sem tengist deginum.

Þýðingarmikil mál styrkt

Stígandi hefur verið í söfnun Takk dagsins frá ári til árs. Í fyrra nýttist afrakstur Takk dagsins í þágu langveikra og fatlaðra ungmenna, en þá söfnuðust rúmar 11 milljónir króna sem runnu til Rjóðursins á Landspítalanum. Árið áður söfnuðust 8,2 milljónir króna sem gengu til þjóðarátaksins Ég á bara eitt líf og Bergsins, móttöku- og stuðningsseturs fyrir ungt fólk.

„Takk dagurinn hefur fest sig vel í sessi og viðskiptavinir Fossa fagna þessu árlega framtaki og tækifærinu til að staldra við og leggja eitthvað á vogarskálarnar til þeirra sem vinna að þýðingarmiklum málum,“ segir Haraldur.