Líkt og fyrri ár var nýtt met slegið í söfnun í þágu góðs málefnis á árvissum Takk degi Fossa fjárfestingarbanka sem fram fór í níunda sinn 23. nóvember síðastliðinn. Alls söfnuðust 24.1 milljónir króna sem Steingrímur Arnar Finnsson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka, afhenti Elíasi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Krýsuvíkursamtakanna, í höfuðstöðvum Fossa við Fríkirkjuveg í Reykjavík í dag, þriðjudaginn 28. nóvember.
„Takk dagurinn fór fram úr okkar björtustu vonum og við erum viðskiptavinum okkar afar þakklát fyrir að leggja söfnuninni lið fyrir þennan mikilvæga málstað, með viðskiptum og beinum framlögum,“ segir Steingrímur.
Mikil ánægja hefur verið hjá viðskiptavinum og starfsfólki með daginn og vöxtinn í söfnuninni ár hvert. Á síðasta ári söfnuðust rúmar 23,9 milljónir króna sem runnu til Píeta samtakanna og árið þar á undan söfnuðust rúmar 21,6 milljónir króna sem runnu til Jafningjaseturs Reykjadals. Samtals hafa safnast um 114 milljónir króna frá því að fyrsti Takk dagurinn var haldinn.
Á Takk degi Fossa fjárfestingarbanka renna allar þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins til góðs málefnis. Auk Fossa taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland) og uppgjörsfyrirtækið T Plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau í staðinn til söfnunarinnar. Þá gefur auglýsingastofan TVIST vinnu sína sem tengist deginum.
„Þörfin fyrir meðferðarpláss hefur aukist og biðlistarnir lengst mikið síðustu misseri og þessi styrkur því gríðarlega mikilvægur fyrir okkur. Hann mun nýtast okkur til þess að bæta við plássum ásamt því að aðlaga þjónustuna betur að skjólstæðingum okkar með nýrri sérálmu fyrir konur. Við erum Fossum og öllum sem tóku þátt, virkilega þakklát fyrir framlagið,“ segir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Krýsuvíkur.