7. júlí 2017

Vel heppnuð ráðstefna um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna

Fossar markaðir héldu ráðstefnu sem bar yfirskriftina Ísland – Svíþjóð í Iðnó, þann 19. júní s.l. þar sem umfjöllunarefnið var erlendar fjárfestingar íslensku og sænsku lífeyrissjóðanna. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra flutti opnunarávarp og Andri Guðmundsson framkvæmdastjóri Fossa markaða í Svíþjóð stýrði fundinum.

Frummælendur á fundinum voru Stefán Halldórsson verkefnastjóri hjá Landssamtökum Lífeyrissjóða, Kerstin Hessius, forstjóri sænska lífeyrissjóðins AP3, Magnus Billing, forstjóri Alecta og Michael Kjeller yfirmaður eignastýringar Folksam. Í erindi sínu bar Stefán saman lífeyrisskerfi Íslands og Svíþjóðar, en fulltrúar sænsku lífeyrissjóðanna fjölluðu um með hvaða hætti og á hvaða forsendum sjóðirnir fjárfesta utan Svíþjóðar.

Ráðstefnan fékk góðar viðtökur, en yfir 100 manns mættu í Iðnó þar á meðal voru fulltrúar frá íslensku lífeyrissjóðunum, Alþingi og Seðlabanka Íslands.

Bjarni fagnaði frumkvæði Fossa að boða til fundarins í inngangsræðu sinni og tilkynnti stofnun starfshóps sem mun skoða hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífsins. Eignasamsetning lífeyrissjóðanna hefur verið mjög áberandi í þjóðfélagsumræðunni vegna stærðar lífeyrissjóðanna í íslensku efnahagskerfi. Í árslok 2015 námu eignir íslensku lífeyrissjóðanna 150% af landsframleiðslu og áttu lífeyrissjóðirnir um helming af markaðsvirði skráðra félaga í kauphöllinni.