Fossar fjárfestingarbanki hélt árlegu ráðstefnu sína, Iceland Capital Markets Day, á Claridge’s í London þar sem erlendum fjárfestum var boðið að kynna sér stöðu íslensks efnahagslífs og tækifæri til fjárfestinga, bæði á skulda- og hlutabréfamarkaði hérlendis. Margt hefur breyst á einu ári og verður íslenski markaðurinn sífellt samtvinnaðri við þann alþjóðlega, bæði hvað varðar fjárfesta, viðskipti og skráningar. Sturla Pálsson frá Seðlabanka Íslands fór yfir stöðu íslenska hagkerfisins, Haraldur Þórðarson forstjóri Skaga kynnti nýtt afl á fjármálamarkaði og Eldur Ólafsson forstjóri Amaroq Minerals fór yfir áfangasigra félagsins undanfarin misseri og framtíðaráform.
„Það er ánægjulegt að sjá síaukinn áhuga á Íslandi, bæði mættu margir á viðburðinn og eins áttum við fjölmarga fundi í kjölfarið þar sem farið var ítarlega yfir stöðuna hér á landi og svöruðum spurningum,“ segir Steingrímur A. Finnsson forstjóri Fossa fjárfestingarbanka.
Hann segir að erlent eignarhald í íslensku efnahagslífi hafi verið að aukast jöfnum skrefum undanfarin ár. Þó séum við komin skemur á þeirri vegferð en efni standa til ef miðað er t.d. við stöðu fjármálamarkaðarins og lánshæfi ríkisins.
„Við í Fossum höfum allt frá stofnun unnið stöðugt að því að treysta tengslin erlendis og kynna tækifæri sem gefast á Íslandi fyrir erlendum fjárfestum. Við höfum verið leiðandi á þeirri vegferð að hafa milligöngu um að auka vægi erlendra þátttakanda á innlendum fjármálamarkaði og ætlum okkur það hlutverk áfram. Fundurinn í London var liður í því og gefur okkur væntingar um að við séum á réttri leið,“ segir Steingrímur.
Fossar þakka kærlega fyrir komuna, þáttökuna og stuðninginn við áframhaldandi markaðssetningu okkar
á Íslandi sem fjárfestingarkosti utan landsteinanna.