23. desember 2021

Stöðugur vöxtur í skuldabréfaútgáfu

Sífellt færist í vöxt að fyrirtæki sæki fjármögnun með útgáfu skráðra skuldabréfa. Í umfjöllun ViðskiptaMoggans, þar sem rætt var við Arnar Geir Sæmundsson hjá fyrirtækjaráðgjöf Fossa markaða, segir hann ágætan vöxt á markaði skuldabréfa, hvort heldur sem litið sé til fjölda útgefenda eða umfangs.

Fram kemur í máli Arnars Geirs að verulegan hluta vaxtarins megi rekja til sjálfbærra skuldabréfa og margir útgefendur noti skuldabréfamarkaðinn til að greiða upp eldri flokka og aðra bankafjármögnun. Um leið er bent á að Fossar haldi utan um fleiri útgáfur skráðra skuldabréfa en nokkuð annað fjármálafyrirtæki hér á landi.

Arnar Geir rekur ástæðu þróunarinnar til þess að núna séu einfaldlega sögulega góðar ástæður fyrir lántakendur, sem eru útgefendur bréfanna. „Bæði eru vextir lágir og álag á fyrirtækjabréf miðað við ríkisskuldabréf hefur einnig lækkað talsvert á síðustu mánuðum,“ segir hann í viðtalinu. Sífellt fleiri fyrirtæki sem náð hafi ákveðinni stærð horfi til útgáfu skuldabréfa. „Það hefur ótvíræða kosti þótt oft sé gott fyrir fyrirtæki að hafa bæði sveigjanlega fjármögnun í formi ádráttarlína hjá bönkum í bland við fjármögnun af þessu tagi.“

Þá segir Arnar Geir ánægjulegt að sjá sjálfbær bréf sækja í sig veðrið. „Þessi bréf eru mun álitlegri kostur en var fyrir tveimur til þremur árum, bæði fyrir útgefendur og fjárfesta. Leiðbeiningar eða tilmæli um hvaða forsendur þurfi að uppfylla fyrir útgáfunni eru orðnar skýrari en var. Þetta á við um græn, blá, félagsleg og önnur sjálfbær skuldabréf,“ er eftir honum haft í ViðskiptaMogganum.

Eins er hann spurður að því hverjir fjárfesti helst í þessum bréfum og bendir á að kaupendahópurinn hafi breikkað til muna. „Þetta eru að stærstum hluta íslenskir fjárfestar en erlendir fjárfestar hafa einnig sýnt þessu áhuga. Kaupendahópurinn hefur breikkað og þótt mikið sé talað um að sparnaðurinn hafi leitað að mestu í hlutabréfakaup þá hafa margir tekið skrefið hálfa leið frá ríkisbréfunum. Þar eru fyrirtækjabréfin augljós kostur.“

Línuritin sem fylgdu umfjöllun ViðskiptaMoggans, miðvikudaginn 22. desember 2021, sýna þróun markaðsvirðis fyrirtækjabréfa og skuldabréfa.

Nálgast má umfjöllun ViðskiptaMoggans, sem birtist 22.12.2021, hér á vef Morgunblaðsins: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1797719/