Bandarískum fjárfestum var í seinustu viku kynnt þróun og staða á íslenskum fjármálamarkaði á árlegri ráðstefnu Fossa fjárfestingarbanka í New York.
Mæting var góð og fjárfestarnir fengu innsýn í íslenskt efnahagslíf auk umfjöllunar um einkenni og uppgang íslenskra fjármálamarkaða í kjölfar þess að vísitölufyrirtækið FTSE Russell færði Ísland upp um gæðaflokk 19. september síðastliðinn. Þannig var innstreymi á íslenskan hlutabréfamarkað rúmir 100 milljón dollarar á einum degi eftir að landið færðist upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. secondary emerging markets).
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka, opnaði viðburðinum, sem fram fór 5. október, en síðan tóku til máls Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, og Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri Arion banka.
Segja má að í erindum þeirra hafi komið fram þrjú meginþemu þar sem bent var á styrkar grunnstoðir íslensks efnahagslífs, öfluga innviði landsins og vaxandi vægi íslenskra fjármálaafurða á heimsvísu.
„Við ræddum líka næstu skref í þróuninni, svo sem möguleg uppfærslu inn í nýmarkaðsvísitölu MSCI úr svokallaðri frontier-vísitölu. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir teljum við að Ísland eigi raunhæfan möguleika á því eftir þetta fyrsta skref FTSE í september,“ segir Haraldur Þórðarson forstjóri Fossa. „Slík þróun er líkleg til að laða fleiri virka fjárfesta að Íslandi og auka enn frekar áhuga á íslenska markaðnum.“
Hvað varðar þróun efnahagsmála segir Haraldur hafa komið fram að Ísland væri um margt í öfundsverðri stöðu samanborið við önnur lönd því Seðlabanki Íslands hafi farið á undan í vaxtahækkanaferli sínum sem nú sjái fyrir endann á þegar verðbólga er á undanhaldi. „Þrátt fyrir óvissutíma á heimsvísu heldur Ísland velli og stefnir í áframhaldandi vöxt á árinu“ segir Haraldur.