Fossar
15. desember 2022

Sjóður í stýringu Glyms fjárfestir 1,6 milljarða í Sidekick

Sérhæfður fagfjárfestasjóður í rekstri Glyms hefur lokið við fjárfestingu að fjárhæð 1,6 milljarða króna í heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health. Söluaðili sjóðsins er Fossar fjárfestingarbanki.

Fjárfestingin er til viðbótar rúmlega sjö milljarða fjármögnun í Sidekick frá því í maí síðastliðnum þegar vísisjóðirnir Novator Ventures, Wellington Partners, Asabys Partners og Frumtak Ventures fjárfestu í félaginu, auk þess sem leiðandi bandarískt sjúkratryggingafélag tók þátt í fjármögnuninni.

„Íslenskir fjárfestar hafa sýnt mikinn áhuga á því að fjárfesta í Sidekick um nokkurt skeið og er það því mikil ánægja að fá breiðan hóp íslenskra fjárfesta að verkefninu í samstarfi við Fossa,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri og meðstofnandi Sidekick.

Sidekick þróar og markaðssetur stafrænar heilbrigðismeðferðir í samstarfi við stærstu lyfja- og sjúkratryggingafélög í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar á meðal eru alþjóðlegu lyfjafyrirtækin Pfizer, Bayer og Eli Lilly auk Elevance Health, sem er stærsta sjúkratryggingafélag Bandaríkjanna.

Markmið félagsins er að styðja við sjúklinga utan veggja heilbrigðiskerfisins, draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk og bæta meðferðarárangur. Sidekick vinnur einnig að rannsóknarverkefnum í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir hérlendis og erlendis.

Sidekick hlaut The European Lifestars Awards í nóvember síðastliðnum sem besta heilbrigðistæknifyrirtæki Evrópu árið 2022. Verðlaunin eru veitt árlega af LSX, áhrifamestu líftæknisamtökum álfunnar, en bakhjarlar verðlaunanna eru meðal annars lyfjarisarnir Merck og Johnson & Johnson.