24. nóvember 2016

Samstarf Fossa markaða og Saxo Bank

Fossar markaðir hafa undirritað samstarfssamning við danska bankann Saxo Bank. Samningurinn veitir viðskiptavinum Fossa aðgang að yfir 50 kauphöllum um heim allan þar sem í boði eru yfir 30 þúsund fjárfestingakostir, m.a. í hlutabréfum, skuldabréfum, gjaldeyri og skráðum verðbréfasjóðum.

Fossar munu bjóða viðskiptavinum sínum beinan markaðsaðgang þar sem þeir munu geta tengst viðskiptakerfi og átt viðskipti nánast hvar og hvenær sem er, í gegnum borðtölvu eða fartölvu, spjaldtölvu og snjallsíma. Beinn aðgangur verður í gegnum heimasíðu Fossa og verður þjónustan aðgengileg á næstu vikum. Samstarfið er hluti af stefnu Fossa um aukna áherslu á alþjóðlega starfsemi, meðal annars með opnun skrifstofu í Stokkhólmi.

Anna Þorbjörg Jónsdóttir, sem leiðir uppbyggingu erlendra fjárfestinga hjá Fossum, segist hlakka til að bjóða viðskiptavinum félagsins upp á aðgang að alþjóðlegum mörkuðum með samstarfinu við Saxo Bank: „Viðskiptakerfin eru þægileg í notkun og veita góða yfirsýn yfir marga ólíka markaði og fjárfestingakosti. Til viðbótar er boðið upp á ýmis greiningartæki sem auðveldar ákvarðanatöku og gott aðgengi að fréttum og margskonar greiningum á fyrirtækjum og mörkuðum frá Saxo Bank og samstarfsaðilum þeirra. Tímasetningin er góð þar sem afnám fjármagnshafta er innan seilingar og heimurinn að opnast íslenskum fjárfestum á ný.“

Martin Ernst, framkvæmdastjóri Saxo Bank á Norðurlöndunum:

„Við hjá Saxo Bank erum ánægð með að hafa gengið til samstarfs við Fossa markaði. Tímasetning samningsins gæti ekki verið betri þegar horft er til aðstæðna á Íslandi og uppbyggingar Fossa markaða á alþjóðlegri starfsemi og fjárfestingum.“

Hann segir að í vændum séu spennandi tækifæri fyrir íslenska fjárfesta sem samstarfið leiði af sér. „Annars vegar vegna alþjóðlegrar reynslu sem sérfræðingar Fossa búa yfir og hins vegar vegna sérhæfðrar þekkingar sem starfsmenn Saxo Bank hafa öðlast á liðnum áratugum og fært hafa bankanum fjölmörg verðlaun fyrir markaðslausnir sínar. Þetta gagnkvæma samstarf mun opna Íslendingum dyrnar á ný að alþjóðlegum fjármálamörkuðum,“ segir Martin Ernst ennfremur.

Saxo Bank er leiðandi í rafrænum viðskiptum á heimsvísu og viðskiptakerfi Saxo Bank hafa hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga frá fagaðilum. Höfuðstöðvar Saxo Bank eru í Kaupmannahöfn og er bankinn með 25 skrifstofur víðsvegar um heim.