Þrír nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til Fossa fjárfestingarbanka. Rúnar Friðriksson hefur verið ráðinn yfirmaður eigin viðskipta Fossa og hefur störf í dag, 1. desember. Hrafnkell Ásgeirsson hefur þegar hafið störf á lögfræði- og regluvörslusviði bankans og Sigrún Vala Hauksdóttir tekur á næstunni til starfa í fyrirtækjaráðgjöf Fossa.
Rúnar hefur starfað í nær tvo áratugi við eigin viðskipti fjármálafyrirtækja. Árin 2004 til 2007 var hann sérfræðingur á sviði eigin viðskipta Kaupþings. Þaðan var hann ráðinn til Saga Capital sem yfirmaður eigin viðskipta þar sem hann starfaði til 2011. Árin 2012 til 2014 gegndi hann stöðu sérfræðings á sviði eigin viðskipta hjá Straumi fjárfestingarbanka. Rúnar kemur svo til Fossa frá Arion banka þar sem hann hefur starfað sem sérfræðingur eigin viðskipta bankans frá árinu 2015. Rúnar er rekstrarhagfræðingur frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og með BSc. gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla. Þá er hann löggiltur verbréfamiðlari.
Hrafnkell Ásgeirsson kemur til Fossa frá LOGOS lögmannsþjónustu þar sem hann hefur starfað frá 2017, en síðastliðið ár var hann á skrifstofu stofunnar í London. Helstu starfssvið Hrafnkels hafa verið fjármálamarkaðir, félagaréttur og fyrirtækjaráðgjöf, auk samruna og yfirtaka. Hrafnkell er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt því að vera með réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum.
Sigrún starfaði áður hjá fyrirtækjaráðgjöf KPMG og þar áður sem sérfræðingur á sviði markaðsviðskipta hjá Seðlabanka Íslands. Sigrún lauk BS gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Reykjavík og stefnir að því að ljúka meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja á komandi ári. Hún hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.