5. desember 2019

Öll íslensk ríkisskuldabréf verði græn

Íslendingar hafa tækifæri til þess að verða fyrstir þjóða til að gera alla útgáfu ríkisskuldabréfa græna, bæði í íslenskum krónum og í erlendri mynt. Íslensk stjórnvöld hafa í framhaldinu tækifæri til þess að nýta afrakstur grænnar skuldabréfaútgáfu til þess að fullfjármagna metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum.

Í heimsókn Sean Kidney forstjóra og stofnanda Climate Bonds Initiative, helsta sérfræðings heims í grænum skuldabréfum, í október, notaði hann tækifærið til að vekja athygli íslenskra ráðamanna á þessum möguleikum. Kidney, sem er m.a. ráðgjafi Evrópusambandsins, Kína og framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um græn skuldabréf, staðhæfir að með því að Ísland sýni fram á að hægt sé að gera ríkisskuldabréfaútgáfu að öllu leyti græna – og fullfjármagna loftslagsáætlun stjórnvalda, verði Ísland öðrum þjóðum mikil fyrirmynd.

Þau riki sem farið hafa af stað í grænni ríkisskuldabréfaútgáfu, Frakkland, Holland, Pólland og Síle, svo fáein séu nefnd, hafa þurft að skipta upp skuldabréfaútgáfu sinni og gefa þannig bæði út græn skuldabréf og hefðbundin skuldabréf. Útgáfa grænna skuldabréfa hefur mælst vel fyrir hjá þessum ríkjum sem hafa fengið hagstæð kjör og ætla að halda grænni útgáfu áfram. Ísland er hinsvegar í þeirri einstöku stöðu að á sama tíma og nóg er af grænum verkefnum er skuldastaða ríkissjóðs með því lægsta sem gerist í heiminum. Því þarf íslenska ríkið ekki að skipta útgáfu sinni upp (e. carve out) í græna útgáfu og hefðbundna.

Græn skuldabréfaútgáfa er að flestu leyti eins og útgáfa annarra skuldabréfa, nema að því leyti að útgefandinn heitir því að veita andvirði útgáfunnar til umhverfisvænna verkefna og aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Með því að ríkið taki forystu með útgáfu grænna ríkisskuldabréfa er hægt að slá margar flugur í hverju höggi; skuldabréfamarkaðurinn dýpkar, eftirspurn og fjöldi fjárfesta eykst, tækifærum fjárfesta til grænna fjárfestinga fjölgar ofl. Ekki er síður mikilvægt að Ísland yrði þannig fyrirmynd á heimsvísu hvað varðar baráttuna gegn loftslagsvánni með tilheyrandi kastljósi á sjálfbæra nýtingu auðlinda landsins – m.a. í sjávarútvegi, orkuframleiðslu og ferðaþjónustu – með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á hagkerfið allt.

Þessir kostir hafa komið skýrt fram grænum skuldabréfaútgáfum íslenskra aðila að undanförnu. Í útboðum sem Fossar markaðir höfðu umsjón með fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur fengust betri kjör en áður. Að auki vöktu útgáfurnar mun meiri athygli en hefðbundnar útgáfur og talsvert fleiri fjárfestar tóku þátt í þeim. Þá hafa grænu bréfin reynst frábær vettvangur fyrir samtal fjárfesta og útgefenda um áherslur beggja í umhverfismálum og þau grænu verkefni sem fjármagnið er nýtt í. Þetta teljum við að verði einnig raunin þegar íslenska ríkið fer af stað með græna útgáfu.

Til þess að árangur náist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum verður að virkja krafta markaðarins. Útgáfa grænna skuldabréfa er þáttur í því sem fyrirtæki og stjórnvöld geta gert. Það er fagnaðarefni hvernig íslenska ríkið hefur riðið á vaðið með því að í nýju frumvarpi um stofnun Þjóðarsjóðs, sé sérstaklega tiltekið að græn skuldabréf verði hluti af fjárfestingastefnu hans. Í nýlegri ræðu á þingi Norðurlandaráðs sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra einnig að tryggja þyrfti að lífeyrissjóðir fjárfesti einnig til góðs með þessum hætti.

Það er okkar mat að með útgáfu grænna skuldabréfa verði mögulegt að styrkja fjármögnun ríkissjóðs, fjármagna aðgerðaáætlun til kolefnishlutleysis, styrkja alþjóðlegt orðspor Íslands og auka verðmæti íslensks útflutnings. Á sama tíma ná árangri sem eftir verður tekið í því sem mun skipta komandi kynslóðir öllu máli, að takast á við loftslagsvána.

Andri er framkvæmdastjóri hjá Fossum mörkuðum. Kristján er ráðgjafi um ábyrgar fjárfestingar.