Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, var tekinn tali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins og spurður út í aðstæður á skuldabréfamarkaði.
Fram kom í máli Haraldar að aukin áhersla bankanna á einstaklingslán og minnkandi áhersla á fyrirtækjalán búi til hvata fyrir fyrirtæki til þess að leita nýrra fjármögnunarleiða. Í þeim efnum væri fyrirtækjaskuldabréfamarkaður spennandi valkostur.
„Allar forsendur eru til staðar fyrir því að fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn geti blómstrað. Fjármögnun fyrirtækja getur þ.a.l. að auknu leyti verið markaðsfjármögnun sem sérhæfðir aðilar, eins og Fossar markaðir, hafa milligöngu um. Þetta er jákvæð þróun því fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn hefur hálfpartinn legið í dvala frá árinu 2008,“ sagði Haraldur í Viðskiptablaðinu og bætti við að frá hruni hafi ekki fyrr en nýverið verið nægur hvati til þess að fyrirtæki leiti inn á fyrirtækjaskuldabréfamarkaðinn.
Haraldur benti á að fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn væri fýsilegur kostur fyrir lífeyrissjóði og aðra stofnanafjárfesta. „Lægri vextir og áhersla bankanna á einstaklingslán hefur gert það að verkum að lífeyrissjóðirnir hafa staðið frammi fyrir uppgreiðslum á íbúðalánum til viðbótar við hefðbundið innflæði á formi iðgjalda. Lífeyrissjóðirnir eru þegar umsvifamiklir á hlutabréfamarkaði og tæki þeirra til þess að létta á fjárfestingaþörfinni, sem voru m.a. íbúðalánin, er ekki jafn sterkt og áður. Þar sem bankarnir hafa minnkandi áhuga á fyrirtækjalánum væri mjög eðlilegt að lífeyrissjóðir myndu nýta tækifærið og beina fjármagni sínu í auknum mæli til innlendra fyrirtækja í gegnum fyrirtækjaskuldabréfamarkaðinn,“ sagði hann.
Þá benti Haraldur á að aukið líf hafi færst í fyrirtækjaskuldabréfamarkaðinn undanfarið. „Í fyrra sóttum við um 60 milljarða króna fyrir okkar viðskiptavini og það sem af er þessu ári höfum við sótt yfir 50 milljarða. Það er sannarlega líf á þessum markaði, eftirspurnin er til staðar og ég tel að fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn muni færast enn í aukana.“
Eins sagði Haraldur aukna áherslu á sjálfbærni á markaði. „Þessi þróun er rétt að hefjast og fjárfestar eru í síauknum mæli að horfa til þessara þátta. Þetta hófst með grænu skuldabréfunum og hefur einnig verið að færast yfir í önnur skuldabréf sem uppfylla alþjóðleg skilyrði með áherslu á umhverfismál, félagsmál og ábyrga stjórnun (ESG). Ég trúi að þetta styðji við vöxt fyrirtækjaskuldabréfamarkaðarins.“
Í viðtalinu sagði Haraldur jafnframt að líflegri fyrirtækjaskuldabréfamarkað geti laðað erlenda fjárfesta til Íslands. „Frá árinu 2008 hefur virkasti hluti skuldabréfamarkaðarins verið með ríkisskuldabréf og svo í auknum mæli sértryggð bréf. Virkari fyrirtækjaskuldabréfamarkaður gæti verið áhugaverð þróun fyrir erlenda aðila sem fjárfesta í skuldabréfum, sem myndi svo breikka mögulegan hóp fjárfesta sem gætu komið að fjármögnun innlendra fyrirtækja.“
Blaðið birti líka með viðtalinu útskýringu á því hvers vegna Fossar voru undanskildir í sérblaði Viðskiptablaðsins og Keldunnar um „Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri“ um miðjan síðasta mánuð. Fossar hafa uppfyllt skilyrðin árlega frá því að listinn var fyrst birtur og gera enn. Skatturinn, sem venjulega á að afgreiða ársreikninga 10. september, afgreiddi ekki ársreikning Fossa fyrr en eftir að vinnslu blaðsins lauk og því fór sem fór.