Bandarískur fjárfestingasjóður fjárfestir í Heimavöllum fyrir 300 milljónir króna.
Íbúðaleigufélagið Heimavellir hefur lokið endurfjármögnun að andvirði þriggja milljarða króna við bandarískan fjárfestingasjóð fyrir milligöngu Fossa markaða. Unnið hefur verið að heildarendurfjármögnun félagsins að undanförnu og er þetta mikilvægt skref á þeirri vegferð.
Þá hefur bandaríski fjárfestingasjóðurinn jafnframt keypt hlutabréf í Heimavöllum fyrir um 300 milljónir króna. Sem kunnugt er áforma Heimavellir að skrá félagið á markað. Í byrjun maí hefst almennt útboð á nýju hlutafé í félaginu sem í kjölfarið verða tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands. Skráningarlýsing vegna hlutafjárútboðsins hefur þegar verið birt og þessa dagana fara fram kynningar með fjárfestum.
Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla:
„Það er mikilvægt fyrir okkur að finna fyrir því trausti sem erlendir aðilar hafa á starfsemi Heimavalla og þeirri framtíðarsýn sem lögð hefur verið upp í aðdraganda að skráningu félagsins á Aðalmarkað Kauphallar Íslands. Það birtist meðal annars í því að erlendir aðilar eru tilbúnir að fjármagna félagið yfir lengri tíma og koma samhliða inn sem hluthafar. Skráningarlýsingin liggur nú fyrir og er öllum aðgengileg fyrir hlutafjárútboðið sem fram fer dagana 7. og 8. maí. Markmiðið er að Heimavellir, sem er stærsta leigufélag sinnar tegundar á Íslandi, sé í dreifðri eignaraðild og jafnframt góð viðbót í hóp skráðra félaga í Kauphöll Íslands sem gefi fjárfestum kost á frekari áhættudreifingu í eignasöfnum sínum.“
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða:
„Fossar markaðir hafa að undanförnu með sérfræðiþekkingu sinni og öflugu tengslaneti haft milligöngu um aðkomu erlendra fjárfesta að íslensku viðskiptalífi. Aðkoma erlendra aðila að starfsemi Heimavalla, bæði með lánveitingu og fjárfestingu í félaginu, sýnir bæði þá trú sem þeir hafa á félaginu og eins efnahagslífinu hér á landi. Við teljum að fjölbreyttari hópur fjárfesta í íslensku atvinnulífi styðji við bakið á stjórnendum fyrirtækja, miðli mikilvægri reynslu og stuðli að dreifðari áhættu í efnahagslífinu.“