Starfsfólk Fossa fjárfestingarbanka hringdi inn Takk daginn í dag en þetta er níunda sinn sem blásið er til dagsins. Sem hluti af þessum árlega viðburði velur starfsfólk málefni sem stutt er með söfnun Takk dagsins. Í ár rennur afrakstur dagsins til uppbyggingar sérálmu fyrir konur í Krýsuvík og fjölgun meðferðarplássa.
„Viðburðurinn er ávallt tilhlökkunarefni hjá starfsfólki Fossa og það hefur verið gefandi að geta unnið að því í samstarfi við viðskiptavini á ári hverju, að styðja við samtök sem eru að bæta samfélagið okkar á einn eða annan hátt,“ segir Steingrímur Arnar Finnsson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka.
Að þessu sinni rennur ágóði söfnunarinnar til Krýsuvíkursamtakanna sem starfrækja meðferðarheimilið Krýsuvík. Meðferðin á Krýsuvík er einstaklingsmiðuð langtímameðferð þar sem öll vinna er unnin af fagfólki og leitast er við að leysa þá hluti í fari skjólstæðinga sem hafa tafið þá í þroska eða haldið þeim fyrir utan samfélagið. „Krýsuvíkursamtökin hafa nýlega gert miklar breytingar á sinni starfsemi og eru að vinna gríðarlega mikilvægt starf fyrir einstaklinga með fíknivanda. Við fögnum tækifærinu til þess að geta lagt samtökunum lið við að bæta þjónustuna enn frekar,“ segir Steingrímur.
Biðlistinn lengst mikið síðustu ár
Meðferðin á Krýsuvík hafa verið starfrækt frá árinu 1986 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Þörfin hefur aukist mikið á síðustu árum og biðlistinn langur. Samtökin eru með áform um talsverðar breytingar á húsnæðinu sem gera þeim kleift að fjölga plássum og byggja sérstaka kvennaálmu, en konur og karlar hafa hingað til deilt rými í meðferðinni. „Við vonumst til þess að geta hjálpað samtökunum við þessar fyrirætlanir að fjölga plássum til þess að konur hafi sitt eigið rými í meðferðinni, en þær koma í meðferð með stærri áfallasögu og flóknari vanda,“ segir Steingrímur.
Stígandi í söfnun Takk dagsins
Auk Fossa taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland) og uppgjörsfyrirtækið T Plús þátt í Takk deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa innan dagsins sem í staðinn renna til söfnunarinnar. Þá gefur auglýsingastofan TVIST vinnu sína sem tengist deginum.
Mikil ánægja hefur verið með framtakið frá upphafi og vöxtur í söfnuninni frá ári til árs. Á síðasta ári söfnuðust 23,9 milljónir króna sem runnu til Píeta samtakanna og árið áður söfnuðust 21,6 milljónir sem runnu til Jafningjaseturs Reykjadals. Samtals hefur á þessum árum safnast um 90 milljónir króna.
„Viðbrögð viðskiptavina hafa verið frábær síðustu ár og þá hafa beinu framlögin skipt sköpum í söfnuninni. Við erum afar þakklát fyrir þátttökuna og vonumst til þess að geta slegið nýtt met á þessu ári og þar með 100 milljón króna múrinn,“ segir Steingrímur.