1. apríl 2019

Fossar sjá um græna skuldabréfaútgáfu OR

Orkuveita Reykjavíkur mun halda útboð á grænum skuldabréfum þann 4. apríl næstkomandi. Fossar markaðir hafa umsjón með útboðinu.

Skuldabréfaflokkurinn sem boðinn verður út hefur auðkennið OR 180255 GB og er til 36 ára. Hann ber fasta verðtryggða vexti og verður tekinn til viðskipta á Nasdaq Iceland Sustainable Bond markaðnum. Flokkurinn er jafngreiðsluflokkur með greiðslum höfuðstóls og vaxta tvisvar á ári og lokagjalddaga þann 18. febrúar 2055. Flokkurinn var boðinn út í fyrsta skipti þann 13. febrúar sl. en þá voru seld skuldabréf að nafnvirði 3,528 milljón krónur á ávöxtunarkröfunni 2,60%.

Útboðið verður lokað og með hollenskri aðferð, þar sem öll skuldabréf verða seld á hæstu ávöxtunarkröfu sem tekið verður. OR áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er að hluta eða í heild eða hafna öllum. Niðurstöður útboðsins verða birtar opinberlega eigi síðar en næsta virka dag eftir útboð. Lágmarksfjárhæð tilboða er 20.000.000 kr.

Hvað eru græn skuldabréf?
Græn skuldabréf eru skuldabréf sem gefin eru út til að fjármagna verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna þannig gegn hlýnun jarðar og þeirri vá sem henni fylgir. Einn helsti hvatinn að útgáfu þeirra er vinna fjölda opinberra- og einkaaðila gegn loftslagsbreytingum og vitundarvakning meðal fjárfesta hefur hert á þessari þróun. Allir þeir útgefendur skuldabréfa sem sem fjárfesta í umhverfisvænum verkefnum geta gefið út græn skuldabréf; ríki, sveitarfélög og fyrirtæki.