Fossar fjárfestingarbanki hefur verið ráðinn ráðgjafi Amaroq Minerals í tengslum við fyrirhugaða tilfærslu félagsins frá First North yfir á aðalmarkað Nasdaq Iceland. Hlutverk Fossa felur meðal annars í sér að sjá um markaðssetningu á félaginu sem fjárfestingarkost, kynna félagið fyrir mögulegum fjárfestum og greina möguleg áhrif tilfærslunnar á verðmyndum og veltu með hlutabréf félagsins.
Amaroq Minerals hélt þá vel heppnaðan fjárfestadag í síðustu viku fyrir bæði innlenda og erlenda fjárfesta. Þar fóru stjórnendur félagsins yfir starfsemi og framtíðarhorfur ásamt því að fara yfir fyrirhugaða tilfærslu á aðalmarkað. Þá fóru greinendur frá Stifel og Panmure Gordon í Bretlandi yfir markaði og framtíðarhorfur með málma og kynningu á óháðu verðmati á félaginu.
Amaroq var stofnað árið 2017 með megináherslu á að finna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi, rannsaka og þróa þau svæði sem málma er að finna og vinna þessa málma úr jörðu. Félagið er með leitar- og vinnsluleyfi á svæði sem nær yfir 7.866,85 ferkílómetra á Suður-Grænlandi og nær það yfir tvö þekkt gullbelti á svæðinu. Verðmætasta eign Amaroq er Nalunaq svæðið, þar sem undirbúningur að vinnslu er langt kominn.
Hægt er að nálgast vefstreymi af fundinum hér: https://www.amaroqminerals.com/investors/
Hægt er að nálgast kynningu af fundinum hér: https://www.amaroqminerals.com/investors/presentations/