19. desember 2016

Fossar markaðir styðja Barnaspítala Hringsins

Fjórar milljónir króna sem söfnuðust á Takk deginum hjá Fossum mörkuðum í lok nóvember renna til Barnaspítala Hringsins.

Á Takk deginum, sem í ár var 25. nóvember, renna þóknanatekjur Fossa til góðs málefnis sem starfsfólk velur hverju sinni. Um er að ræða samstarfsverkefni Fossa og viðskiptavina fyrirtækisins, auk þess sem framtakið naut í ár stuðnings Kauphallarinnar, Nasdaq Iceland, sem felldi niður kauphallargjöld og uppgjörsfyrirtækisins T plús sem felldi niður færslugjöld sín þennan dag.

„Við gerðum þetta í fyrsta sinn í fyrra, að gefa þóknanatekjur eins dags til góð málefnis og höfum nú ákveðið að gera heldur meira úr þessu og festa í sessi sem árlegan viðburð,“ segir Haraldur Þórðarson, framkvæmdastjóri Fossa markaða.

„Í fyrra völdum við dag og styrktum Mæðrastyrksnefnd, en tilkynntum ekki fyrir fram að tekjur dagsins yrðu gefnar til góðs málefnis,“ segir hann, en núna fengu viðskiptavinir tilkynningu um Takk daginn deginum áður. „Svo ætlum við núna að senda þeim bréf sem tóku þátt með því að beina viðskiptum sínum hingað með upplýsingum um hvað safnaðist og bjóða þeim að vera getið í bréfi með framlaginu þegar við afhendum það Barnaspítalanum núna í desember.“

Haraldur segir starfsfólk og aðstandendur fyrirtækisins koma saman hverju sinni til að ákveða hvaða málefni verði styrkt. Í ár hafi verið samstaða um að styrkja Barnaspítala Hringsins, sem veiti börnum og unglingum mikilvæga og sérhæfða heilbrigðisþjónustu frá fæðingu til 18 ára aldurs.

„Á Barnaspítalanum er unnið mjög gott starf og margir, þar á meðal velflestir starfsmenn Fossa, sem hafa með einum eða öðrum hætti notið þjónustu Barnaspítalans,“ segir Haraldur. Þá séu teknar til greina við val á góðum málstað beiðnir um stuðning sem Fossum hafi borist.