Fossar markaðir hf. opna skrifstofu í London snemma á næsta ári.
„Við höfum undirbúið að hefja starfsemi í London,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða. Hann segir skrifstofunni ætlað að styðja við vöruframboð Fossa til viðskiptavina innanlands sem hyggjast fjárfesta erlendis.
„Að sama skapi er markmiðið að færa fyrirtækið nær erlendum viðskiptavinum sem vilja fjárfesta á Íslandi, en eins og kunnugt er höfum við lagt töluverða áherslu á þann viðskiptavinahóp,“ segir Haraldur.
„Við sjáum mikil tækifæri í þeim breytingum sem eru hafnar í markaðsumhverfinu hér á landi í tengslum við losun hafta og teljum að þau tækifæri geti nýst viðskiptavinum okkar vel.“ Hann segir Fossa þegar hafa sett upp sérstaka einingu innan fyrirtækisins sem sérhæfi sig í erlendri miðlun, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja frá hruni. Auk þess bjóði fyrirtækið viðskiptavinum upp á beina tengingu á netinu við hátt í 60 kauphallir og yfir 100 markaði í samstarfi við Saxo.
Skrifstofa Fossa markaða í London verður í Mayfair og kemur til með að starfa undir nafninu Fossar Markets Ltd.
Fossar markaðir hf. er óháð verbréfafyrirtæki sem þjónustar innlenda og erlenda fagfjárfesta á sviði verðbréfamiðlunar. Félagið er aðili að Nasdaq Iceland kauphöllinni og veitir alhliða þjónustu í tengslum við verðbréfaviðskipti á innlendum og alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Fossar reka skrifstofur í Reykjavík og í Stokkhólmi.