Í desember höfðu Fossar markaðir milligöngu um fjögurra milljarða króna lánsfjármögnun bandarísks fjárfestingasjóðs til Almenna leigufélagsins.
Lánið er hluti af heildar endurfjármögnun Almenna leigufélagsins sem mun hafa í för með sér umtalsverða lækkun á fjármagnskostnaði félagsins. Haft er eftir Maríu Björk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins, að endurfjármögnun félagsins sé mikilvægur liður í undirbúningi á skráningu á markað, en stefnt er að því að skrá Almenna Leigufélagið á markað innan tveggja ára.
Fossar markaðir hf. er óháð verðbréfafyrirtæki sem þjónustar innlenda og erlenda fagfjárfesta á sviði verðbréfamiðlunar. Fossar markaðir hf. veita alhliða þjónustu í tengslum við verðbréfaviðskipti á fjármálamarkaði. Enn fremur aðstoða Fossar fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir að sækja sér fjármagn á fjármagnsmörkuðum. Þá hafa Fossar markaðir sérhæft sig í þjónustu við alþjóðlega fjárfesta sem starfa á íslenskum mörkuðum og hefur gegnt lykilhlutverki við að kynna fjárfestingakosti fyrir erlendum aðilum á íslenskum markaði.