21. október 2019

Fossar markaðir bakhjarl Climate Bonds Initiative

Fossar markaðir hafa gengið til liðs við Climate Bonds Initiative (CBI) sem bakhjarl, fyrst íslenskra fyrirtækja.

Climate Bonds Initiative eru alþjóðleg samtök sem vinna að því að virkja skuldabréfamarkaði á heimsvísu í þágu umhverfismála. Sérfræðingar CBI eru ráðgjafar ríkisstjórna í grænum skuldabréfaútgáfum auk þess sem CBI stendur að alþjóðlegu staðla- og vottunarkerfi fyrir græn skuldabréf. Þá stendur CBI að víðtækri skýrslugjöf varðandi umfang og tækifæri grænnar skuldabréfaútgáfu á heimsvísu.

Af þessu tilefni er Sean Kidney, framkvæmdastjóri og stofnandi CBI, staddur á Íslandi og mun hitta fulltrúa fjárfesta, atvinnulífs og stjórnvalda og að ræða tækifæri Íslands hvað varðar útgáfu grænna skuldabréfa.

Fossar markaðir hafa síðustu ár rutt brautina fyrir græna skuldabréfamarkaðinn á Íslandi og hafa haft umsjón með öllum innlendum grænum skuldabréfaútgáfum hingað til. Markaðurinn hefur vaxið hratt og telja nú útgefin skuldabréf í íslenskum krónum yfir 20 milljarða.

Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Fossum:
„Við hjá Fossum mörkuðum lítum á samstarfið við Climate Bonds Initiative sem frábært tækifæri og erum spennt fyrir því að vinna með CBI að frekari uppbyggingu græna skuldabréfamarkaðarins bæði hér heima sem erlendis.“