31. desember 2019

Fossar áttu helming stærstu viðskipta ársins

Fossar markaðir komu að miðlun helmings tuttugu stærstu viðskipta ársins, að því er fram kemur í nýrri umfjöllun á fréttavef Viðskiptablaðsins.

„Fossar komu jafnframt að þremur stærstu viðskiptum ársins og fimm af þeim tíu stærstu,“ segir jafnframt í umfjölluninni. Á eftir Fossum, með næstflest af stærstu viðskiptum ársins, var Kvika banki með fjögur, svo Arctica Finance með þrjú, Landsbankinn með tvö og Arion banki með ein.

Þá kemur fram að af tuttugu stærstu viðskiptunum hafi sjö þeirra verið með bréf Arion banka, fjögur með bréf Marel, þrjú með bréf Símans og Brim, tvö með bréf Haga og ein með bréf VÍS.

„Þrátt fyrir að hafa átt einungis ein af stærstu viðskiptum ársins var það þó Arion Banki sem var með hæstu hlutdeildina af viðskiptum á hlutabréfamarkaði eða 20,7% en dróst þó saman um fjögur prósentustig á milli ára. Þar á eftir kemur Íslandsbanki með 19,8% en hlutdeild bankans jókst um 4,8 prósentustig á milli ára. Í þriðja sæti koma svo Fossar markaðir með 19,1% en voru þó það fyrirtæki með mestu hlutdeildaraukninguna á milli ára eða 6,2%,“ segir jafnframt í umfjölluninni.

Þá kemur fram að þegar einn viðskiptadagur var eftir í Kauphöllinni á árinu hafi velta ársins á hlutabréfamarkaði numið um 610 milljörðum króna, sem sé aukning um 20,5% á milli ára, en viðskipti höfðu dregist saman um 20% árið 2018.