28. september 2018

Adrian og Daði hefja störf hjá Fossum

Tveir nýir starfsmenn hafa bæst í öflugan starfsmannahóp Fossa markaða. Adrian Sabido og Daði Kristjánsson hafa verið ráðnir í teymi markaða og starfa á skrifstofu Fossa í Reykjavík. Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, segir þá hafa átt samleið í störfum sínum á fjármálamarkaði og hafi mikla reynslu.

Adrian Sabido er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og vinnur nú, meðfram störfum sínum hjá félaginu, að MCF gráðu í fjármálum við Háskólann í Reykjavík. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Adrian hefur yfir 10 ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði, en áður en hann gekk til liðs við Fossa markaði starfaði hann í markaðsviðskiptum Arctica Finance frá árinu 2015. Adrian starfaði hjá H.F. Verðbréfum frá 2011 til 2015 þar sem hann var forstöðumaður markaðsviðskipta. Þar áður starfaði Adrian í fjárstýringu hjá Icebank á tímabilinu 2008 til 2009.

Daði Kristjánsson er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði og M.Sc. gráðu í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Daði hefur yfir 10 ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Áður en hann gekk til liðs við Fossa markaði starfaði Daði í markaðsviðskiptum Arctica Finance frá árinu 2015. Þá var hann forstöðumaður markaðsviðskipta og síðar framkvæmdastjóri hjá H.F. Verðbréfum frá 2010 til 2015. Þar áður starfaði Daði í gjaldeyris- og afleiðumiðlun Icebank á tímabilinu 2007 til 2009.

„Við fögnum því að fá til okkar í öflugt teymi starfsmanna Fossa markaða þá Adrian Sabido og Daða Kristjánsson. Þeir hafa átt samleið í störfum sínum á íslenskum fjármálamarkaði og eru öflugir menn með mikla reynslu. Adrian og Daði styrkja þegar öflugan starfsmannahóp Fossa og hjálpa til við að efla enn frekar þjónustu okkar við viðskiptavini félagsins,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.