31. mars 2023

Vel heppnuð umbreyting í banka

afkoma Fossa fjárfestingarbanka á árinu 2022

Afkoma Fossa fjárfestingarbanka á árinu 2022 var viðunandi miðað við þá kostnaðarsömu uppbyggingu sem ráðist var í á árinu. Afkoma bankans var neikvæð um 76,9 milljónir króna á tímabilinu en þar af voru 35,2 milljónir vegna útvíkkunar á starfsemi Glyms á vettvangi sjóðastýringar. Þá var umtalsverð fjárfesting í vexti bankans, þ.m.t. fjölgun tekjustoða, uppbyggingu innviða og fjölgun starfsmanna, og nemur kostnaður sem rekja má beint til umbreytingar félagsins úr verðbréfafyrirtæki í banka um 240 milljónum króna. Jafnframt komu erfiðar ytri aðstæður á mörkuðum niður á tekjum.

Helstu punktar úr ársreikningi:

  • Rekstrarafkoma Fossa á árinu 2022 var neikvæð um 76,9 milljónir króna. Þar af var hlutdeild í afkomu Glyms hf. neikvæð um 35,2 milljónir.
  • Gert er upp í fyrsta sinn samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) sem leiðir af sér neikvæð áhrif á rekstrarafkomu, einkum í tengslum við leiguskuldbindingar.
  • Efnahagsreikningur bankans stækkar umtalsvert í takt við nýja starfsemi og námu heildareignir bankans 7.444 milljónum króna í lok árs 2022 samanborið við 1.200 milljónir árið áður.
  • Lán til viðskiptavina námu 1.390 milljónum króna og jukust um 1.142 milljónir á árinu.
  • Á árinu hóf bankinn útgáfu fjármálagerninga með tveimur vel heppnuðum víxlaútgáfum á kjörum sem samsvara 95bps á 6m Reibor.
  • Eignir í stýringu í móður- og dótturfélagi um áramót námu 20,9 milljörðum króna og eignir í fjárvörslu 47,5 milljörðum.

 

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka:

„Árið 2022 var mikið umbreytingarár í sögu Fossa þar sem verðbréfafyrirtæki var breytt í banka. Reksturinn litaðist töluvert af fjárfestingu í nýrri starfsemi sem mun skila sér hratt á komandi misserum. Áskoranir í ytra umhverfi voru einnig umtalsverðar og tafir á útgáfu nýs starfsleyfis gerðu að verkum að nýir tekjustraumar komu inn síðar á árinu en gert hafði verið ráð fyrir.

Önnur markmið en fjárhagsleg náðust hins vegar að öllu leyti. Það felur meðal annars í sér útgáfu nýs starfsleyfis, uppbyggingu innviða, ný tekjusvið og ráðningar framúrskarandi einstaklinga, en starfsmannafjöldi Fossa tvöfaldaðist á árinu. Kostnaðarsamt er að setja nýjan banka á laggirnar, en að sama skapi fjárfesting í tekjum til framtíðar.

Við hófum árið 2023 á mun breiðari tekjugrunni en áður þar sem allir nýir tekjustraumar eru komnir í gagnið. Árið hefur farið vel af stað og hafa viðskiptavinir okkar tekið víðtækari þjónustu fagnandi. Glymur hf., sem sótti um leyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða  á síðasta ári, er nú að fullu í eigu bankans og mun aukið sjóðaframboð félagsins skjóta enn fleiri stoðum undir tekjusköpun samstæðunnar.”

Mikil sóknarfæri á árinu 2023

Kaflaskil urðu í sögu Fossa á síðasta ári þegar félagið varð fjárfestingarbanki, en með því getur bankinn boðið viðskiptavinum sínum víðtækari þjónustu. Frá stofnun hefur verið jafn stígandi í vexti Fossa og bankinn sumpart vaxið með viðskiptavinum sínum, bæði innlendum og erlendum, til að geta veitt þeim alla þá þjónustu sem kallað hefur verið eftir.

„Nú styttist í að við séum hálfnuð með innleiðingu á fimm ára áætlun félagsins og hefur hún gengið vel á flest alla mælikvarða. Þá styttist í að Glymur láti af sér kveða sem starfsleyfisskyldur rekstraraðili sérhæfðra sjóða.  Því má segja að samstæða bankans sé að verða fullmótuð.

Á árinu 2023 skiptum við um gír og sækjum fram með markvissum hætti.  Tilkynnt hefur verið um viðræður við VÍS um sameiningu félaganna á grundvelli viljayfirlýsingar. Gangi það eftir yrði til öflugt fjármálafyrirtæki í sterkri stöðu til að nýta möguleika til vaxtar á fjármálamarkaði,“ segir Haraldur.

Fossar njóta sérstöðu á markaði íslenskra fjármálafyrirtækja og staðsetja sig í þjónustu á milli stærri fjármálafyrirtækja á borð við viðskiptabankana og smærri fjármálafyrirtæki sem veita sérhæfðari þjónustu. Hátt þjónustustig, mikil innlend og alþjóðleg sérþekking og skýr sýn á þróun markaða bæði heima og erlendis er meðal þess sem einkennt hefur Fossa frá upphafi.

 

Frekari upplýsingar veitir:

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka – haraldur.thordarson@fossar.is

 

Ársreikning Fossa má finna á fjárfestasíðu félagsins, sjá nánar hér: Fjárfestar | Fossar