Fossar fjárfestingarbanki halda Takk daginn í tíunda sinn í dag og að þessu sinni er safnað í þágu Einstakra barna. Á Takk deginum renna þóknunartekjur af verðbréfaviðskiptum í kauphöll auk beinna framlaga viðskiptavina og velunnara Fossa óskipt til söfnunarinnar. Færst hefur í vöxt undanfarin ár að fólk leggi inn frjáls framlög beint á söfnunarreikning Takk dagsins. Með Fossum taka þátt í söfnuninni Kauphöllin (Nasdaq Iceland), uppgjörsfyrirtækið T Plús og auglýsingastofan TVIST, sem gefur þá vinnu sína sem tengist deginum.
Viðtöl og hópastarf til stuðnings fjölskyldum
Starfsemi Einstakra barna, sem er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni, hefur aukist jafnt og þétt að umfangi á undanförnum árum samfara aukinni þörf. Nú eru nær átta hundruð fjölskyldur og aðstandendur barna í félaginu, sem byggir starfsemi sína eingöngu á frjálsum framlögum og sjálfboðavinnu félagsfólks, en aðeins eitt stöðugildi framkvæmdastjóra er hjá félaginu.
Söfnunarfé Takk dagsins verður notað sérstaklega til að bjóða fjölskyldum upp á gjaldfrjálsa tíma hjá sérfræðingum og standa fyrir fjölbreyttu hópastarfi aðstandenda einstakra barna. Framlag þeirra sem taka þátt í deginum mun þannig efla starfsemina og styðja við börnin og fjölskyldur þeirra sem mæta fjölbreyttum áskorunum dag hvern.
Samtökin bjóða aðstandendum einnig upp á ráðgjöf og leiðbeiningar þegar kemur að ósk um aðstoð í heilbrigðiskerfinu sem oft vill verða flókið fyrir Einstök börn og er þessi þjónusta veitt félagsfólki að kostnaðarlausu.
Hægt að leggja samtökunum lið með því að leggja inn á söfnunarreikning:
Bankareikningur:
526-26-660914
Kennitala:
660907-0250
Framlög renna óskipt til Einstakra barna, stuðningsfélags barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma og heilkenni.
Takk dagurinn vaxið með árunum
Fossar fjárfestingarbanki héldu fyrsta Takk daginn í nóvember 2015 þegar Mæðrastyrksnefnd var úthlutað fyrsta styrknum að upphæð 2,5 milljónir króna. Síðan þá hafa framlögin hækkað árlega í takt við aukin umsvif Fossa og hefur Takk dagurinn skilað ríflega 114 milljónum króna til níu styrkþega frá því að söfnunin hófst. Á síðasta ári hlutu Krýsuvíkursamtökin afrakstur söfnunarinnar þegar þeim var úthlutað rúmum 24 milljónum króna.