Fossar fjárfestingarbanki héldu Takk daginn í tíunda sinn 28. nóvember þegar safnað var í þágu Einstakra barna. Á Takk deginum renna þóknunartekjur af verðbréfaviðskiptum í kauphöll auk beinna framlaga viðskiptavina og velunnara Fossa óskipt til söfnunarinnar. Óhætt er að segja að árangurinn af söfnuninni í ár hafi farið fram úr björtustu vonum því alls söfnuðustu 26,5 milljónir króna sem voru afhentar fulltrúum Einstakra barna 3. desember.
Að sögn Guðrúnar Helgu Harðardóttur, framkvæmdastjóra Einstakra barna verður afraksturinn notaður til þess að styðja við börnin og fjölskyldur þeirra, en upphæðin tryggir að hægt verður að veita félagsfólki nauðsynlega þjónustu, þar á meðal þátttöku í hópastarfi og viðtöl við sérfræðinga endurgjaldslaust í þrjú ár. „Að finna svona góðan stuðning og velvild í garð félagsins og fjölskyldnanna er okkur mjög mikilvægt því nú getum við með hjálp Fossa tryggt félagsmönnum aukna faglega þjónustu sem skipir miklu máli og mun án efa koma sér afar vel. Umhyggja og nálgun starfsmanna Fossa hefur verið einstök en, það er einmitt samfélagslegur stuðningur sem heldur félaginu og þjónustu þess gangandi,“ segir Guðrún Helga.
Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að fólk leggi söfnuninni lið með beinum framlögum á söfnunarreikning Takk dagsins. Steingrímur Arnar Finnsson, forstjóri Fossa, segist vera einstaklega stoltur yfir því hvað snertiflötur dagsins er orðinn víðfeðmur sem endurspeglast í þeim mikla fjöldi einstaklinga, fyrirtækja og annarra lögaðila sem leggja hönd á plóg og gera söfnunina jafn atkvæðamikla og raun ber vitni.
Um 800 fjölskyldur njóta stuðnings
Starfsemi Einstakra barna, sem er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni, hefur aukist jafnt og þétt að umfangi á undanförnum árum samfara aukinni þörf. Nú eru nær átta hundruð fjölskyldur og aðstandendur barna í félaginu, sem byggir starfsemi sína eingöngu á frjálsum framlögum og sjálfboðavinnu félagsfólks, en aðeins eitt stöðugildi framkvæmdastjóra er hjá félaginu. Samtökin bjóða aðstandendum einnig upp á ráðgjöf og leiðbeiningar þegar kemur að ósk um aðstoð í heilbrigðiskerfinu sem oft vill verða flókið fyrir Einstök börn og er þessi þjónusta veitt félagsfólki að kostnaðarlausu.
Takk dagurinn vaxið með árunum
Fossar héldu fyrsta Takk daginn í nóvember 2015 þegar Mæðrastyrksnefnd var úthlutað fyrsta styrknum að upphæð 2,5 milljónir króna. Síðan þá hafa framlögin hækkað árlega í takt við aukin umsvif Fossa og að meðtalinni upphæðinni sem safnaðist 28. nóvember sl. hefur Takk dagurinn alls skilað ríflega 140 milljónum króna til styrkþega frá því að söfnunin hófst.
Frekari upplýsingar
Fyrir hönd Einstakra barna: Guðrún Helga Harðardóttir, fjölskyldufræðingur og framkvæmdastjóri, í síma 568 2661, netfang: einstokborn@einstokborn.is.
Fyrir hönd Fossa fjárfestingarbanka: Steingrímur Arnar Finnsson, forstjóri Fossa, í síma 522 4000, netfang: steingrimur.finnsson@fossar.is