Sjálfbærni
2. október 2023

Sameining Fossa fjárfestingarbanka hf. og VÍS frágengin

Kaup VÍS á Fossum fjárfestingarbanka hf. eru nú frágengin, sem þýðir að ferli sem hófst með viðræðum um sameiningu í febrúar er nú lokið. Sameinað félag verður öflugt fyrirtæki á fjármálamarkaði með víðtækar starfsheimildir til fjármálaþjónustu.

Sameinað félag byggir á 106 ára sögu, breiðum viðskiptamannagrunni, sterkum efnahagi og er með víðtæk tengsl við atvinnulíf og fjármálamarkaði. Þetta eru öflugir innviðir fyrir framúrskarandi þjónustu á sviði trygginga, fjárfestingarbanka, einkabanka, sjóða- og eignastýringar og annarrar sérhæfðrar fjármálaþjónustu. Horft er til þess að áhrif af sameiningu felist fyrst og fremst í tækifærum til vaxtar og sóknar.

Aukinn fjárhagslegur styrkur
Í samræmi við áætlanir sameinaðs félags um frekari sókn í fjárfestingarbankastarfsemi hefur stjórn VÍS samþykkt hlutafjáraukningu í Fossum, sem nemur tæplega 1,4 milljarði króna, og samanstendur af hlutafé og umbreytingu víkjandi láns. Hlutafjáraukningin eykur fjárhagslegan styrk bankans og styður við fyrirliggjandi áform um hraðan vöxt í bankastarfsemi og markvissa sókn á íslenskum fjármálamarkaði.

Steingrímur Finnsson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka:
„Það er mikið gleðiefni að þessi öflugu félög leiði nú saman hesta sína og lagður sé grunnur að leiðandi fjármálafyrirtæki. Framundan eru því spennandi tímar hjá sameinuðu félagi þar sem sókn á markaði er í lykilhlutverki.“