Markaður með fyrirtækjaskuldabréf hefur þroskast umtalsvert á undanförnum árum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í orðum Steingríms Finnssonar, framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hjá Fossum í nýlegri umfjöllun Markaðarins, viðskiptatímarits Fréttablaðsins, um horfur á þeim markaði. Steingrímur er sannfærður um að fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn muni vaxa hratt á komandi misserum þrátt fyrir að umfang hans hafi nánast staðið í stað frá áramótum.
Markaðurinn hafi þó þroskast á undanförnum árum og minnir Steingrímur á hversu fábrotinn íslenskur verðbréfamarkaður var lengi vel eftir efnahagshrunið 2008. Þá hafi afar fá félög verið skráð á markað og skuldabréfamarkaðurinn hafi meira og minna verið nýttur af ríkinu og nokkrum sveitarfélögum. Sé tekið tillit til þess hafi markaðurinn tekið stakkaskiptum og þróunin því í takt við væntingar.
Hann telur einnig að fleiri fyrirtæki, sveitarfélög og aðrir aðilar muni sjá hag sinn í því að nýta markaðinn til fjármögnunar í ljósi þess að sá jarðvegur sé afar frjór.
„Markaðurinn grundvallaðist lengi vel að mestu á tiltölulega einsleitum verðtryggðum útgáfum til handa stofnanafjárfestum. En nú er svo komið að markaðurinn býður upp á ýmiss konar útgáfur miðaðar að mismunandi fjárfestahópum. Einnig hafa verið stigin stór skref í útgáfu grænna og sjálfbærra skuldabréfa sem hafa hlotið mjög góðar viðtökur á markaði,“ sagði Steingrímur jafnframt.
Hann telur að Ísland sé eftirbátur annarra þjóða sé litið til þróunar á fyrirtækjaskuldabréfamarkaði en að fljótt verði breyting þar á. Sérstaklega í ljósi þess að Ísland sé eitt af þróuðustu ríkjum heims með tiltölulega vanþróaðan fjármagnsmarkað. Sé horft á hið alþjóðlega umhverfi hafi svokallað skuggabankakerfi og markaðsfjármögnun orðið mun farsælli farvegur við miðlun fjármagns í hagkerfinu á undanförnum áratugum. Að mati Steingríms sé hinn íslenski markaður um fimm til sjö árum á eftir í þeirri þróun og ljóst að skuldabréfamarkaðurinn muni verða enn raunhæfari kostur við fjármögnun fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra útgefenda – og síðar fýsilegasti valmöguleikinn sem þessum aðilum muni bjóðast.
Nálgast má umfjöllun Markaðarins hér: https://www.frettabladid.is/markadurinn/horfa-fram-a-voxt-i-utgafu-fyrirtaekjaskuldabrefa/