29. nóvember 2021

Metsöfnun á Takk degi Fossa

Met var slegið í söfnun í þágu góðs málefnis á árvissum Takk degi Fossa markaða sem fram fór í sjöunda sinn 25. nóvember síðastliðinn. Alls söfnuðust 21.622.502 kr. sem Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa, afhenti Margréti Völu Marteinsdóttur, forstöðukonu Jafningjaseturs Reykjadals, í höfuðstöðvum Fossa við Fríkirkjuveg í Reykjavík í dag, mánudaginn 29. nóvember.

Takk degi Fossa hefur verið afar vel tekið af viðskiptavinum og samstarfsfyrirtækjum og stöðugur vöxtur í söfnuninni allt frá upphafi. „Viðskiptavinir Fossa gerðu okkur mögulegt að afhenda Jafningjasetri Reykjadals þennan styrk, en þátttakan í ár sló öll fyrri met. Þar vega líka þungt bein framlög inn á reikning söfnunarinnar,“ segir Haraldur. Í fyrra söfnuðust 12,6 milljónir króna sem runnu til Geðhjálpar og árið áður runnu rúmar 11 milljónir til Rjóðursins á Landspítalanum.

Líkt og áður er það starfsfólk Fossa sem velur það málefni sem fær styrk Takk dagsins. Jafningjasetrið hóf starfsemi í Hafnarfirði í október og var gríðarvel tekið, en um er að ræða félagsmiðstöð fyrir börn og ungmenni með fötlun eða sérþarfir þar sem þau hafa tækifæri til að skemmta sér með jafningjum við frístunda- og tómstundastörf.

Á Takk degi Fossa markaða renna allar þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins til góðs málefnis. Auk Fossa markaða taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland) og uppgjörsfyrirtækið T Plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau í staðinn til söfnunarinnar. Þá gefur auglýsingastofan TVIST vinnu sína sem tengist deginum.

„Við erum í skýjunum yfir þessu stórkostlega framlagi sem til stuðnings við nýhafinni starfsemi Jafningjaseturs Reykjadals. Með þessum styrk er hægt að setja fullan kraft í að finna starfseminni varanlegt húsnæði,“ segir Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Jafningjaseturs Reykjadals.

 

MYND: Söfnunarféð afhent. Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða og Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Reykjadals. (Mynd/Anton Brink Hansen)