Fasteignafélagið Reykjastræti ehf. lauk nýverið endurfjármögnun á hluta af lánum félagsins með sölu á nýjum skuldabréfaflokki að andvirði 4 ma.kr. undir heitinu REYS 160735. Er þetta fyrsta útgáfu skuldabréfa Reykjastrætis en skuldabréfin eru verðtryggð jafngreiðslubréf til 10 ára með 30 ára afborgunarferli. Skuldabréfin eru veðtryggð með fasteignasafni félagsins.
Sótt verður um töku skuldabréfanna til viðskipta hjá Nasdaq Iceland og bætist Reykjastræti þá í hóp öflugra útgefanda sem sjá hag sinn í að nýta sér kosti markaðsfjármögnunar í gegnum skuldabréfamarkað. Stefnir félagið að því að vera reglulegur útgefandi skuldabréfa til frekari endurfjármögnunar á lánasafni félagsins.
Reykjastræti á fjölbreytt safn fasteigna og er eignasafnið um 46 þúsund fermetrar að stærð og samanstendur af 14 nýlegum og vel staðsettum eignum á höfuðborgarsvæðinu. Til viðbótar er félagið með í rekstri yfir 360 bílastæði, samtals hátt í 10 þúsund fermetra sem staðsett eru í bilakjöllurum Hafnartorgs og Hörpu. Helstu eignir félagsins eru Urðarhvarf 4 og 8, Reykjastræti 2 (3.-5. hæð), Kalkofnsvegur 2 (3.-6. hæð), Dalvegur 32 A og B, Tónahvarf 5 og Koparhella 5.
Ekki var um almennt útboð að ræða. Útboðið var undanþegið gerð lýsingar á grundvelli a, c og d-liðar, 4. mgr. 1. gr. reglugerðar Evrópusambandsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/1129 um lýsingu sem birta skal þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/2020 um sama efni.
Fossar fjárfestingarbanki hf. hafði umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna sem og fyrirhugaðri töku þeirra til viðskipta hjá Nasdaq Iceland.
Nánari upplýsingar veitir:
Arnar Geir Sæmundsson, Fossar fjárfestingarbanki hf., sími: 522 4000, netfang: arnar.saemundsson@fossar.is
Halla Sigrún Mathiesen, Fossar fjárfestingarbanki hf., sími: 522 4000, netfang: halla.mathiesen@fossar.is
Ólafur Þór Jóhannesson, Reykjastræti ehf., netfang olafur@tgverk.is