2. desember 2025

Fossar umsjónaraðili skuldabréfaútgáfu Íveru

Íbúðafélagið Ívera ehf. lauk í dag sölu á nýjum skuldabréfaflokki að andvirði 5 ma.kr. undir heitinu IVERA 111235. Skuldabréf í flokknum eru verðtryggð vaxtagreiðslubréf til 10 ára, á föstum 3,55% vöxtum. Skuldabréfin verða veðtryggð samkvæmt almennu tryggingafyrirkomulagi félagsins.

Um er að ræða fyrstu útgáfu Íveru á skuldabréfum og sótt verður um töku skuldabréfanna til viðskipta hjá Nasdaq Iceland. Ívera bætist þá í hóp öflugra útgefanda sem sjá hag sinn í að nýta sér kosti markaðsfjármögnunar í gegnum skuldabréfamarkað. Félagið stefnir að því að vera reglulegur útgefandi skuldabréfa til fjármögnunar á frekari vexti félagsins ásamt endurfjármögnun eldri skulda.

Ívera er stærsti einkarekni eigandi íbúðarhúsnæðis á Íslandi. Félagið á fjölbreytt safn fasteigna þar sem um 98% eigna eru staðsettar á suðvesturhorninu. Eignasafnið er um 148 þúsund fermetrar að stærð og samanstendur af tæplega 1.700 íbúðum.

Skuldabréfin voru seld í lokuðu söluferli. Útboðið var undanþegið gerð lýsingar á grundvelli c og d-liðar, 4. mgr. 1. gr. reglugerðar Evrópusambandsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/1129 um lýsingu sem birta skal þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/2020 um sama efni.

Fossar fjárfestingarbanki hf. hafði umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna sem og fyrirhugaðri töku þeirra til viðskipta hjá Nasdaq Iceland.

Uppgjör viðskiptanna er fyrirhugað þann 11. desember nk.

Nánari upplýsingar veitir:

Arnar Geir Sæmundsson, Fossar fjárfestingarbanki hf.
Netfang: arnar.saemundsson@fossar.is

Ástrós Björk Viðarsdóttir, Fossar fjárfestingarbanki hf.
Netfang astros.vidarsdottir@fossar.is

Egill Lúðvíksson, Ívera ehf.
Netfang: egill@ivera.is