1. mars 2024

Fossar söluráðgjafi Play í hlutafjárútboði að upphæð 4 ma. kr.

Fly Play hf. hefur tryggt sér áskriftarloforð að andvirði 4 milljarða króna frá bæði núverandi hluthöfum og nýjum fjárfestum.  Skilyrði áskrifta er háð samþykki hluthafa félagsins um að veita stjórn félagsins heimild til að auka hlutafé félagsins á aðalfundi þann 21. mars næstkomandi. Til viðbótar við ofangreinda hlutafjáraukningu mun stjórn félagsins leggja til við hluthafa að stjórninni verði veitt umboð til að efna til almenns útboðs að jafnvirði allt að 8 milljónum evra í íslenskum krónum til að tryggja jafnfræði hluthafa en þeir munu njóta forgangs ef til umframáskriftar kemur. Útboðið er undanþegið gerð lýsingar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/2020, um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði.

Hlutafjáraukningin mun styrkja fjárhagsstöðu félagsins verulega og gera því kleift að grípa spennandi tækifæri til vaxtar og/eða mæta óvæntum áföllum. Við hjá Fossum óskum félaginu og starfsfólki þess innilega til hamingju með þennan áfanga.

Fossar fjárfestingarbanki hf. var söluráðgjafi Play í útboðinu ásamt Arctica Finance.