2. desember 2025

Fossar söluráðgjafi í hlutafjárútboði Dranga

Vel heppnuðu hlutafjárútboði Dranga er nú lokið.  Þann 18. júlí 2025 tilkynni SKEL fjárfestingafélag að uppgjöri vegna kaupa Orkunnar á hlutafé í Samkaupum væri lokið. Í kjölfarið hófu Drangar hf., nýtt móðurfélag Orkunnar, Lyfjavals og Samkaupa, starfsemi. Umrædd félög undir Dröngum reka sterk vörumerki á neytendamörkuðum um allt land með yfir 160 þjónustustöðvar.

Undanfarnar vikur hefur félagið verið kynnt fagfjárfestum sem fjárfestingakostur vegna aukningar hlutafjár sem ætlað er að fjármagna og hrinda í framkvæmd þeim rekstrarúrbótum sem nauðsynlegar eru hjá Samkaupum.

Markmiðið var að safna 3 milljörðum króna en alls bárust áskriftarloforð að fjárhæð 3,6 milljarða króna sem sýnir þá miklu trú sem fjárfestar hafa á félaginu og þeirri vegferð sem framundan er. Til að koma á móts við umframeftirspurn nýtti Íslandsbanki kauprétt sem bankinn hafði vegna sölutryggingar og SKEL rétt til skuldbreytingar láns og seldu til fjárfesta.

Verð í hlutafjáraukningunni var 12 krónur á hlut, sem jafngildir 24,3 milljarða króna virði hlutafjár, fyrir hlutafjáraukningu. Fjárfestahópurinn samanstendur af innlendum stofnana- og fagfjárfestum, sem og öðrum einkafjárfestum. Í tengslum við útboðið var samþykktur hluthafasamningur sem mælir fyrir um helstu áherslur í stjórnun og rekstri félagsins fram að skráningu í Kauphöll árið 2027.

Söluráðgjöf var í höndum fyrirtækjaráðgjafar Fossa fjárfestingabanka, umsjónaraðili var Íslandsbanki og lögfræðileg ráðgjöf var í höndum BBA//Fjeldco.

Fossar fjárfestingarbanki óskar Dröngum til hamingju með vel heppnað útboð.