EpiEndo Pharmaceuticals hefur lokið útgáfu á breytanlegum skuldabréfum að fjárhæð EUR 9 milljónir, sem svarar til um 1,3 milljarða króna. Útgáfan er þannig uppbyggð að EUR 5 milljónir eru í formi nýs fjármagns en EUR 4 milljónir er framlenging á eldri breytanlegum skuldabréfum, sem voru gefin út fyrir tveimur árum. Þátttakendur í útgáfunni nú eru bæði einkafjárfestar sem og fagfjárfestarnir Birta lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja.
Fjármögnunin gerir EpiEndo, lyfjafyrirtæki í klínískum þróunarfasa, kleift að þróa áfram frumlyf sitt glasmacinal sem er fyrsta lyfið í nýjum lyfjaflokki bólgueyðandi lyfja. Glasmacinal lofar góðu sem meðferð við langvinnum öndunarfærasjúkdómum, svo sem langvinnri lungnaþembu (COPD), sem er þriðja algengasta dánarorsökin í heimi.
Félagið stefnir að áframhaldandi þróun á glasmacinal og á í samtali við stóra erlenda fagfjárfesta og lyfjafyrirtæki um fjármögnun á stórri fasa 2b klínískri rannsókn. Áður en fasi 2b getur hafist þarf að ljúka mikilvægri vinnu á sviði efnaþróunar, framleiðslu og gæðaeftirlits (CMC) og verður hluti skuldabréfaútgáfunnar nýttur til að fjármagna þann undirbúning.
Umsjón, ráðgjöf og sala á útgáfunni var í höndum fyrirtækjaráðgjafar Fossa fjárfestingabanka.