Vegferð sem hófst í desember 2023 með kaupum SKEL á eignarhaldsfélaginu Bjarma, og þar með 5% eignarhlut í Samkaupum, er nú lokið með sameiningu Samkaupa, Heimkaupa, Orkunnar og Lyfjavals.
Samkaup og Heimkaup hafa verið lögformlega sameinuð og mun nýtt móðurfélag, Drangar hf., halda á eignarhlut í Samkaupum, Orkunni og Lyfjaval. Með sameiningu verður til nýr áskorandi á smásölumarkaði sem samanstendur af um 70 matvöruverslunum, 72 Orkustöðvum, 12 þvottastöðvum undir merkjum Löðurs og 8 apótekum víðs vegar um landið. Þá rekur félagið einnig netverslunina Heimkaup. Samanlögð velta ofangreindra félaga var um 75 ma.kr á síðasta ári.
Í viðskiptunum er lagt til grundvallar að samanlagt virði hlutafjár Dranga sé 19,3 ma.kr.. og heildarvirði án leiguskuldbindinga sé 27,3 ma.kr. Stefnt er að því að Drangar verði skráð í kauphöll Íslands fyrir árslok 2027. Þá er hafinn undirbúningur að hlutafjárútboði Dranga til að styrkja enn frekar fjárhagslegan styrk samstæðunnar til frekari vaxtar. Munu fjárfestakynningar hefjast í september.
Fyrirtækjaráðgjöf Fossa hefur frá upphafi verið ráðgjafi SKEL og dótturfélaga í tengslum við viðskiptin á meðan lögræðileg ráðgjöf var í höndum BBA/Fjeldco. Fossar óskar hluthöfum og öðrum hagaðilum til hamingju með viðskiptin og þakkar öllum þeim sem hafa komið að verkefninu fyrir ánægjulegt samstarf.