13. febrúar 2024

Fossar ráðgjafi Amaroq í hlutafjárútboði að upphæð 7,6 ma.kr.

Amaroq Minerals Ltd., félag sem starfar á sviði námuvinnslu og býr yfir námuvinnsluréttindum á landi sem hefur að geyma verulegt magn af gulli í jörðu auk annarra verðmætra málma á Suður-Grænlandi, lauk hlutafjárútboði þann 12. febrúar 2024 að andvirði 7,6 milljarða íslenskra króna. Tvöföld eftirspurn var í útboðinu og verður söluandvirði útboðsins, umfram áður fyrirhugaða 5,2 milljarða, varið í frekari rannsóknir á eignum félagsins í Vagar og Nanoq, sem og í aukið fjármagn fyrir verkefni félagsins í Gardaq.

Alls verður 62.724.758 nýjum hlutum úthlutað til núverandi og nýrra hluthafa, á genginu 127 krónur á hvern hlut. Nýju hlutirnir nema u.þ.b. 19% af útgefnu hlutafé félagsins eftir hækkunina.

Fossar fjárfestingarbanki hf. og Landsbankinn hf. voru sameiginlegir söluráðgjafar Amaroq í útboðinu og Stifel Nicolaus Europe Limited var ráðgjafi og söluaðili í Bretlandi.