Afrakstur Takk dagsins fer til aðgerða sem stuðla að bættri geðheilsu
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, afhenti í dag Héðni Unnsteinssyni, formanni Geðhjálpar, 12,6 milljónir króna, sem er afrakstur Takk dagsins, 26. nóvember síðastliðinn.
„Við hjá Landssamtökunum Geðhjálp viljum þakka Fossum mörkuðum hjartanlega fyrir að leggja viðleitni okkar fyrir bættri geðheilsu Íslendinga lið með rausnarlegu framlagi til málefnisins í kjölfar Takk dagsins,“ segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar. „Það verður gaman að vinna að útfærslu þeirrar geðræktar fyrir landsmenn sem til stendur að nýta fjármagnið til á næsta ári.“
Afhending söfnunarinnar fór fram í höfuðstöðvum Fossa markaða við Fríkirkjuveg 3 í Reykjavík kl. 10 í morgun.
Stuðla að bættu geðheilbrigði
Haraldur segir ánægjulegt hversu vel Takk dagurinn hefur náð að festa sig í sessi. Nú sem fyrr hafi öll framkvæmd tekist vel og sérlega skemmtilegt var hvað allir tóku framtakinu vel og voru tilbúnir að taka þátt í deginum. „Þetta er jú samstarfsverkefni Fossa og viðskiptavina, auk samstarfsaðila,“ segir hann.
Þá segir Haraldur krefjandi tíma líkt og þá sem við nú upplifum vegna Covid-19 bregða kastljósi á hversu mikilvæg samskipti við annað fólk eru og hvað þau skipti miklu máli fyrir andlega velferð fólks.
„Algjör einhugur var um það hjá starfsfólki Fossa markaða að afrakstur Takk dagsins í ár rynni til Geðhjálpar og að við legðumst þar með á árarnar með þeim sem stuðla með beinum hætti að bættri geðheilsu fólks. Nú sem aldrei fyrr þarf að huga að geðheilbrigðinu og veita þeim öflugan stuðning sem sjá fram á erfiða tíma og áskoranir,“ segir hann.
Stuðningur sem skiptir máli
Í ár var Takk dagur Fossa markaða haldinn í sjötta sinn, en þennan daga renna allar þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins til góðs málefnis. Auk Fossa markaða taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland) og uppgjörsfyrirtækið T-plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau í staðinn til söfnunarinnar. Þá gefur auglýsingastofan Tvist vinnu sína sem tengist deginum.
„Takk dagurinn hefur fest sig vel í sessi og viðskiptavinir Fossa fagna þessu árlega framtaki og tækifærinu til að staldra við og leggja eitthvað á vogarskálarnar til þeirra sem vinna að þýðingarmiklum málum,“ segir Haraldur.
MYND: Söfnunarféð afhent. Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða og Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar.