„Markmið ráðstefnunnar er að kynna fjárfestingartækifæri á Íslandi,“ sagði Steingrímur Arnar Finnsson framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Fossum á ráðstefnu í Svíþjóð um grænar fjárfestingar á Íslandi. Norræni fréttamiðillinn NordSIP sat ráðstefnuna.
Auk Steingríms og Andra Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar Fossa markaða með starfsstöð í Stokkhólmi, héldu erindi þau Estrid Brekkan, sendiherra Íslands í Svíþjóð, Ingvar Stefánsson, fjármálastjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Helga Benediktsdóttir, deildarstjóri fjárstýringar Reykjavíkurborgar, og Jóhann Þór Jóhannsson, yfirmaður lánamála hjá Landsvirkjun.
Hlutfall erlendra fjáresta mun aukast
„Erlendir aðilar eiga aðeins um 10% allra hlutabréfa og ríkisskuldabréfa á Íslandi í dag sem er nokkuð minna en í Skandinavíu, þar sem hlutfallið er um 50%. Við höfum trú á því að þetta hlutfall geti farið upp í 50% á Íslandi á næstu 3-5 árum,“ sagði Steingrímur Arnar á fundinum.
Steingrímur Arnar fór jafnframt yfir þann mikla bata sem íslenskt hagkerfi hefur náð á undanförnum árum. Hann bendi á að skuldahlutfall hins opinbera af vergri landsframleiðslu hefði lækkað úr 88% árið 2011 niður í 30% árið 2018. Því mætti búast við því að lánshæfismat íslenska ríkisins yrði á næstunni hækkað úr A- í AA. Þá sagðist Steingrímur Arnar vera bjartsýnn á framhaldið hér á landi, þar sem bæði fjármálakerfið sem og rekstur ríkissjóðs hefðu náð jafnvægi.
Umhverfisvæn orkuframleiðsla
Andri Guðmundsson tók undir þessi orð og sagði að hagvaxtarsaga Íslands væri samofin nýsköpun og tækni á sviði orkunýtingar, hvort sem er á jarðvarma eða vatnsafli.
„Með því að hita hús sín með jarðvarma spara Íslendingar árlega losun á 2-4 milljón tonnum af koltvísýringi [CO2],“ sagði Andri í kynningu sinni og minnti gesti á að ríflega 80% af orkunotkun á Íslandi kæmi frá endurnýjanlegum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Lykilútgefndur grænna skuldabréfa á Íslandi væru Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun.
Fossar leiðandi í grænum skuldabréfum
Fossar markaðir hafa verið leiðandi í umsjón með útboðum grænna skuldabréfa á Íslandi, nú síðast í skuldabréfaútgáfu Orkuveitu Reykjavíkur. Græn skuldabréf eru skuldabréf sem gefin eru út til að fjármagna verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna þannig gegn hlýnun jarðar og þeirri vá sem henni fylgir.