Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins, Steingrímur Finnsson, forstjóri Fossa ásamt Svanhildi Sigurðardóttur stjórnarkonu Ljóssins.
3. desember 2025

32,3 milljónir króna renna til Ljóssins eftir Takk dag Fossa

Ljósið endurhæfingar og stuðningsmiðstöð krabbameinsgreindra tók í gær við rúmlega 32 milljónum sem söfnuðust á Takk degi Fossa fjárfestingabanka.
Framlag Fossa skiptir gríðarlega miklu máli fyrir starfsemi Ljóssins og óhætt að segja að Takk dagurinn standi undir nafni því þakklætið fyrir söfnun sem þessa er mikið.
Fossar fjárfestingarbanki héldu Takk daginn í ellefta sinn 27. nóvember þegar safnað var í þágu Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.

Á Takk deginum renna þóknunartekjur af verðbréfaviðskiptum í kauphöll auk beinna framlaga viðskiptavina og velunnara Fossa óskipt til söfnunarinnar. Líkt og síðustu ár voru viðtökur góðar og þátttaka í Takk deginum mikil. 32,3 milljónir króna söfnuðust og voru afhentar fulltrúum Ljóssins 2. desember.
Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins, segir söfnunina gera endurhæfingarmiðstöðinni kleift að innrétta nýtt stuðningssetur í nýju húsnæði, sem er hjartað í allri starfseminni og fyrsta stopp flestra sem leita til Ljóssins. Mikilvægt sé að nýtt húsnæði taki vel utan um fólk og framlagið frá Fossum og viðskiptavinum þeirra skipti miklu máli svo það takist.

Framlag sem skiptir máli

„Þetta skiptir máli vegna þess að þörfin fyrir starfsemina heldur bara áfram að vaxa. Krabbameinsgreiningum hefur fjölgað gífurlega og spár gera enn ráð fyrir mikilli fjölgun næstu ár. Ljósið er eina endurhæfingarstöðin fyrir fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur þess og í núverandi húsnæði höfum við átt erfitt með að anna öllum þeim fjölda sem til okkar leitar. Því er mikilvægt að færa starfsemina í stærra húsnæði sem fyrst,“ segir Erna.
Steingrímur Arnar Finnsson, forstjóri Fossa, segir Takk daginn hafa fest sig í sessi og afskaplega ánægjulegt hvernig færst hafi í vöxt að fólk leggi söfnuninni lið með beinum framlögum. „Það er víða hægt að hlaupa undir bagga og okkur finnst hafa tekist afskaplega vel til í ár að velja þessa mikilvægu starfsemi sem gagnast svo mörgum,“ segir hann. Starfsfólk Fossa hafi fundið það á Takk deginum að Ljósið snerti líf margra og allir séu meðvitaðir um mikilvægt starf sem þar er unnið.

20 ár frá stofnun Ljóssins

Í ár eru 20 ár frá stofnun Ljóssins og mikið vatn sem runnið hefur til sjávar á frá þeim tíma. Í árdaga starfseminnar var fengin lánuð aðstaða kjallara Neskirkju til starfseminnar og sóttu þá um 20 til 30 manns daglega þjónustu til að byggja sig upp eftir erfið krabbameinsveikindi.
Á síðasta ári sóttu nærri sautján hundruð manns þjónustu til Ljóssins og komur í einstaka þjónustuþætti voru yfir 32 þúsund talsins. Núverandi húsnæði Ljóssins er um 850 fermetrar en til að sinna öllum þeim fjölda sem þangað leita þyrfti húsnæðið að vera í það minnsta 1.300 fermetrar að stærð.

Tíu ára afmæli Takk dagsins

Fossar héldu fyrsta Takk daginn í nóvember 2015, en þá var Mæðrastyrksnefnd úthlutað fyrsta styrknum, sem var að upphæð 2,5 milljónir króna.
Frá þeim tíma hafa framlögin í söfnuninni hækkað á ári hverju í takti við aukin umsvif Fossa, auk þess sem hlutur frjálsra framlaga einstaklinga hefur aukist síðustu ár. Á þessum tíu árum frá stofnun Takk dagsins, að meðtalinni söfnun ársins í ár, hafa alls ríflega 172 milljónir króna runnið til styrkþega.

Frekari upplýsingar veita:

Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins.
s: 6956636
Netfang: erna@ljosid.is

Steingrímur Arnar Finnsson, forstjóri Fossa.
s: 522 4000
Netfang: steingrimur.finnsson@fossar.is